Þú hefur skráð barnið þitt á biðlista eftir talþjálfun hjá Túlkun & tal.

Vakin er athygli á því að biðtíminn er nú ansi langur eða um það bil 2 1/2 ár ef allir koma inn í þjálfun af biðlista.

Á meðan biðtíma ykkar stendur mæli ég með því að tala við og lesa eins mikið fyrir barnið og hægt er. Það hefur góð áhrif bæði á málþroska og einnig framburð. Reyna að tryggja amk. 1-2 sögur á hverju kvöldi og meira ef tíma gefur og jafnvel á öðrum tímum dags. Skoða myndirnar saman og ræða um þær, biðja barnið að endursegja söguna, stoppa við “skrítin” orð eða orðatiltæki sem líklegt er að barnið skilji ekki og útskýra fyrir barninu hvað þau þýða. Eins að nýta tækifærið þegar upp koma margræð orð, t.d skúr getur bæði þýtt kofi og líka smá rigning, dagur er bæði dagur og svo getur einhver heitið Dagur, saga er, saga eins og í bók, saga er líka að taka í sundur spýtu og svo getur það verið nafnið Saga o.s. frv.

Ræða að það séu stundum til mörg orð yfir sama hlutinn og grípa tækifærið þegar t.d. snjóar. Snjór er líka snær, drífa, fönn, hundslappadrífa o.s.frv.

Að setja orð á athafnir sínar er mjög gott, hljómar svolítið eins og að tala sig í gegnum athafnir dagslegs lífs t.d. „ Núna ætlar mamma að fara í bláa skóinn sinn. Hann er með rennilás, svo mamma þarf að renna skónum. Svona.... núna er mamma komin í blá rennda skóinn sinn“.

Hafið barnið aldur til (ca 3-4 ára) mæli ég einnig með að fara í leiki eins og “ég sé eitthvað grænt…” eða “ég sé eitthvað sem byrjar á ssssss….” eða “ég sé eitthvað sem vex í mold/ flýtur á sjó/ flýgur/ býr til hreiður …..” og þannig að fá barnið til að hugsa um orð, og hugsa um umhverfið á annan máta en það hefur gert áður, nota máið til að koma umhverfinu í orð. Það er kjörið tækifæri að fara í þess háttar leiki í bílnum eða í gönguferðum.

Rím, að ríma með barninu eflir hljóðkerfisvitund barnsins. Það er bæði hægt að ríma með alvöru orðum og einnig bullorðum.

Þá mæli ég með að spila eins mikið og hægt er. Spil eins og Sprengjuspilið, samstæðuspil, Gettu hver?, Krakka alias/Junior Alias, Segðu og fleiri spil í þeim dúr auk spila með spilastokk ýta undir orðaforða og öll samskipti ýta undir málþroska og efla samskiptahæfni. Þá er til fullt af efni til kaups í Spilavinum, ABC skólavörum, A4 og á fleiri stöðum sem ýta undir málþroska barna.

Mælt er með að notkun snjalltækja og youtube áhorf sé í lágmarki, en þó eru til forrit sem ýta undir málþroska. Eins ef barnið er að horfa á bíómynd/þátt að einhver fullorðinn sé með því og geti rætt um myndina við barnið á meðan eða eftir að henni lýkur.

Snúi áskoranir barnsins að framburði er mjög gott að vera skýrmæltur þegar maður talar við barnið. Endurtaka þau orð sem barnið ber rangt fram með réttum framburði. T.d. segi barnið “Saddna e síllinn” segja þá "já Þarna er Fíllinn” með ögn áherslu á það/þau hljóð sem barnið ber ekki rétt fram.

Varast skal að biðja barnið um að endurtaka orð sem það ber rangt fram eða biðja það að segja hin og þessi orðin/hljóðin. Einnig skal gæta þess vel að leiðrétta barnið aldrei í návist annarra. Hér er aðeins verið að tala um að endurtaka leiðrétt eftir barninu. Lestur bóka eru öflugt verkfæri bæði hvað málþroska og framburð varðar. Gott að skoða Lubbi finnur málbeinin (bók cd/dvd) eða Lærum og leikum með hljóðin (öpp, bækur og leikir).

Nauðsynlegt er að vera meðvitaður um að vera skýr og góð málfyrirmynd; tala hægt og skýrt og mikið við barnið.

Haft verður samandi við ykkur þegar nær dregur að fyrsta tímanum.

Gangi ykkur vel þangað til,

 

Kveðja

Agnes Steina

Talmeinafræðingur

Túlkun & tal